Auglýstur frestur rennur út í dag til að skrá sig til þátttöku á skógræktarráðstefnuna sem haldin verður 20. janúar til heiðurs Jóni Loftssyni, fyrrverandi skógæktarstjóra. Yfirskrift ráðstefnunnar er Tímavélin hans Jóns og þar verður litið yfir síðustu sjötíu ár í skógrækt á Íslandi og spáð í hver þróunin geti orðið næstu sjötíu árin. Vegna bilunar í skráningarvél eru þátttakendur beðnir að yfirfara skráningu sína á skogur.is
Landgræðsla ríkisins auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar Sjóðurinn úthlutar árlega styrkjum til margvíslegra landbótaverkefna til bænda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra umráðahafa lands. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til og með 20. janúar. 
Fyrsta verkefni nýs skógræktarstjóra, Þrastar Eysteinssonar, er að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt og auka vægi skógræktar í loftslagsvernd. Þetta kom fram í viðtali Rúnars Snæs Reynissonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Áhersla verður lögð á að auka aftur gróðursetningu, sem skorin var niður um helming eftir hrunið,“ segir Þröstur meðal annars í viðtalinu.
Draga má verulega úr útblæstri vegna landbúnaðar í Bretlandi með því að auka uppskeru af hverri flatarmálseiningu, rækta skóg á landbúnaðarlandi og endurheimta votlendi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. 
Kerstin Lange, blaðakona á Nýja-Englandi, skrifar grein um skógrækt á Íslandi í nýjasta tölublað tímaritsins Northern Woodlands. Hún nefnir meðal annars að á Íslandi sé fleira sauðfé nú en var í Vermont þegar fé var þar flest um 1880. Skógar Vermont-ríkis minnkuðu um 75% á fyrstu tveimur öldunum eftir að Evrópumenn settust þar að en hafa verið ræktaðir upp aftur og þekja nú um 78% lands í ríkinu.