Ný rannsókn bendir til þess að beit skordýra hafi áhrif á fræframleiðslu í eldri lúpínubreiðum og geti því flýtt fyrir því að lúpínan gisni og aðrar plöntutegundir taki við. Um þetta er fjallað í grein sem birtist nýlega í vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology. Greinin er hluti af doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur, vistfræðings á rannsóknasviði Skógræktarinnar.
Um tólf þúsund lítrar af olíu og tugir tonna af koltvísýringsútblæstri sparast árlega þegar rafmagn kemst á Langadal á Þórsmörk og Bása á Goðalandi. RARIK lauk nýlega við að leggja 3.800 metra langan jarðstreng frá Húsadal yfir í Langadal á Þórsmörk og þaðan að Básum á Goðalandi. Vonast er til að hægt verði að taka strenginn í notkun á næstunni. Samhliða þessu verki var einnig lögð ný neysluvatnslögn að svæði Ferðafélags Íslands í Langadal.
Sjálfboðaliðar sem starfa á Þórsmörk á komandi sumri munu jafnframt gróðursetja tíu þúsund trjáplöntur í þjóðskógunum og taka þannig þátt í átaki til kolefnisbindingar með skógrækt á Íslandi. Umsóknarfrestur fyrir fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar á Þórsmörk er til 31. janúar.
Árið sem nú er nýhafið er alþjóðlegt ár plöntuheilsu hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Á elleftu stundu vill stofnunin freista þess að vekja athygli heimsbyggðarinnar á því hversu mikilvægur gróður jarðar er fyrir tilveru fólks á jörðinni. Stofnunin varar við hættunni af flutningi plantna og plöntuafurða milli landa og skorar á yfirvöld í löndum heims að efla fræðslu um plöntuheilsu og mikilvægi plantna fyrir mannkynið.