Engjakambjurt, Melampyrum pratense, hefur nú öðlast þegnrétt meðal jurta sem vaxa villtar í íslenskri náttúru. Tegundin hefur þrifist um árabil í Vaglaskógi en var lengi vel greind sem krossjurt. Er­lend­is treystir engjakambjurt á samlífi við maura­teg­und og ekki er útilokað að sú tegund þrífist með henni í Vaglaskógi þótt það hafi ekki verið staðfest. Útbreiðsla jurtarinnar í skóginum bendir til að svo geti verið. Engjakambjurt lifir sníkjulífi á ýmsum trjátegundum.
Mikilvægt er að allir sem nota keðjusög læri réttu handtökin og tileinki sér rétt vinnubrögð til þess að afköst verði góð en ekki síður til að fyllsta öryggis sé gætt og komist verði hjá slysum. Landbúnaðarháskóli Íslands heldur reglulega námskeið um trjáfellingar og grisjun með keðjusög. Slíkt námskeið verður til dæmis haldið á Hallormsstað í október.
Sérfræðingar Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá slógu máli á hæstu tré landsins í síðustu viku. Sitkagrenitré á Kirkjubæjarklaustri sem mælst hefur hæst undanfarin ár heldur þeim titli og er nú komið í 27,18 metra hæð. Hæsta öspin á Hallormsstað mældis 25,46 metrar en gildast mældist evrópulerki á Hallormsstað, 67,5 cm í þvermál.
Í gær, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn fyrsti fundur framkvæmdaráðs Skógræktarinnar, Þar var rætt um þau meginmarkmið að ná meiri og betri árangri í skógrækt. Ákveðið var að næstu skref í skipulagningu nýrrar stofnunar yrðu að ræða við starfsfólk um framtíðarstörf þeirra, með bæði væntingar þeirra og þarfir Skógræktarinnar í huga. Fundir verða haldnir á komandi vikum með starfsfólki á hverjum vinnustað. Auglýst hefur verið eftir sviðstjóra rannsóknasviðs og á næstu dögum verður auglýst eftir nýjum skógarverði á Suðurlandi.
Umhverfisstofnun Brasilíu hefur stöðvað áform um gerð 8.000 megavatta vatnsaflsvirkjunar sem ráðgerð hafði verið í Tapajós-fljótinu í miðjum Amason-frumskóginum. Lón virkjunarinnar hefði orðið 376 ferkílómetrar að stærð og fært í kaf regnskóg þar sem búa um 12.000 frumbyggjar af Munduruku-þjóðflokknum. Allt ræktað skóglendi á Íslandi er til samanburðar um 400 ferkílómetrar.