Halda þarf fram sjónarmiðum sem stuðla að aukinni útbreiðslu skóga, náttúruskóga sem annarra
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri flutti ávarp við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019. Þar reifaði hann svör við nokkrum spurningum um þau verkefni sem eru fram undan í skógrækt á Íslandi og almennar framtíðarhorfur. Þröstur telur að nægilegt land sé til að auka skógrækt en huga verði að auknu hlutverki verktaka við gróðursetningu. Uppbygging sé fram undan hjá gróðrarstöðvum til að mæta vaxandi eftirspurn. Nóg sé til af fræi af helstu trjátegundum þótt betur þurfi að huga að framboði á stafafurufræi og vinna áfram að aukinni fræframleiðslu á Hrym. Til framtíðar þurfi að huga að útbreiðslu birkis hærra yfir sjó og endurskoða notkun á rússalerki með hlýnandi loftslagi. Jafnframt þurfi að huga að uppbyggingu timburauðlindarinnar, meðal annars svo timbur geti leyst steinsteypu af hólmi í byggingum.
03.09.2019