Fyrsta verkefni nýs skógræktarstjóra, Þrastar Eysteinssonar, er að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt og auka vægi skógræktar í loftslagsvernd. Þetta kom fram í viðtali Rúnars Snæs Reynissonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Áhersla verður lögð á að auka aftur gróðursetningu, sem skorin var niður um helming eftir hrunið,“ segir Þröstur meðal annars í viðtalinu.
Draga má verulega úr útblæstri vegna landbúnaðar í Bretlandi með því að auka uppskeru af hverri flatarmálseiningu, rækta skóg á landbúnaðarlandi og endurheimta votlendi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. 
Kerstin Lange, blaðakona á Nýja-Englandi, skrifar grein um skógrækt á Íslandi í nýjasta tölublað tímaritsins Northern Woodlands. Hún nefnir meðal annars að á Íslandi sé fleira sauðfé nú en var í Vermont þegar fé var þar flest um 1880. Skógar Vermont-ríkis minnkuðu um 75% á fyrstu tveimur öldunum eftir að Evrópumenn settust þar að en hafa verið ræktaðir upp aftur og þekja nú um 78% lands í ríkinu.
Danskur skógtækninemi sem tók hluta af starfsnámi sínu á Íslandi hlaut nýlega önnur verðlaun í ritgerðasamkeppni um námsdvöl í útlöndum. Í ritgerðinni lýsir hann því með skáldlegum hætti hvernig það varð úr að hann fór til Íslands og hvernig dvölin færði honum heim sanninn um að hann væri á réttri hillu í þessu fagi og hefði hlutverki að gegna í þágu náttúrunnar.
Ný rannsókn sem gerð var við Washington-háskóla sýnir að nöturösp og gulfura á þurrkasvæðum í Colorado bregðast við þurrkinum með ólíkum hætti. Gulfura lokar sér og hættir að vaxa en nöturösp herðir sig og reynir sem lengst að halda vexti áfram. Rannsóknir á viðbrögðum trjátegunda við afleiðingum loftslagsbreytinga eru mikilvægar til að bregðast megi sem best við þeim breytingum sem á skógunum verða.