Í könnun sem gerð var meðal sveitarfélaga, hagsmunaaðila og stofnana kemur fram að togstreita sé algeng milli skógræktarmanna og búfjáreigenda í dreifbýli þar sem lausaganga búfjár er heimil. Þetta er meðal þess sem finna má í allgóðu yfirliti um skógrækt í áfangaskýrslu starfshóps um undirbúning skipulags landnotkunar í dreifbýli sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra.
Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, fjallar um stöðu og þróun viðarsölu Skógræktar ríkisins í nýtútkomnu Ársriti Skógræktarinnar. Fram kemur m.a. að árið 2013 voru seldir tæplega 3.500 rúmmetrar af viðarkurli en um miðjan síðasta áratug var salan að jafnaði kringum 250 m3 á ári. Salan hefur því meira en tífaldast á áratug.
Starfshópur um undirbúning skipulags landnotkunar í dreifbýli hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra áfangaskýrslu. Dregin eru fram í skýrslunni atriði sem huga þarf að í tengslum við landnotkun í landsskipulagsstefnu, meðal annars stuðningur við skógrækt með tilliti til mismunandi skógræktarskilyrða. Bændablaðið segir frá.
Í þættinum Sjónmáli á Rás 1 hefur undanfarna daga verið fjallað um breytt vaxtarskilyrði trjágróðurs á Íslandi. Rætt hefur verið við tvo starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, Björn Traustason landfræðing og Aðalstein Sigurgeirsson forstöðumann, en einnig Snorra Baldursson, líffræðing og þjóðgarðsvörð, sem beinir spjótum sínum mjög að þeirri skógrækt sem stunduð er á Íslandi.
Í lúðrasveit þorpsins Krumbach í Austurríki eru handlagnir menn sem útbjuggu skífur á eitt þeirra strætóskýla sem hönnuð voru og sett upp í samvinnuverkefni heimamanna og arkitekta víða að úr heiminum. Eitt skýlið hannaði Dagur Eggertsson, arkitekt í Ósló, ásamt félögum sínum og viðarskífurnar utan á það útbjuggu iðnaðarmenn sem einnig leika í lúðrasveit þorpsins.