Svo virðist sem hafarnarpar sé nú að undirbúa varp í grenitré í skóginum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Ekki er vitað til þess að hafernir hafi áður orpið í trjám á Íslandi en tré eru hefðbundnir varpstaðir tegundarinnar erlendis. Sett hefur verið upp vefmyndavél svo fólk geti fylgst með varpinu.
Námskeið í húsgagnagerð var haldið í Vaglaskógi um síðustu helgi. Fullbókað var á námskeiðið og einhverjir lentu á biðlista og komust ekki að. Á námskeiðum sem þessum er unnið með ferskt og þurrt efni svo gott sem beint úr skóginum, ýmist þverskorið eða flett bolefni. Húsakynni Skógræktar ríkisins á Vöglum henta afar vel til námskeiða af þessum toga.
Vísindamenn hafa komist að því að snerting við þrjú algeng illgresislyf, meðal annars hið þekkta Roundup, leiði til þess að sjúkdómsvaldandi bakteríur þrói með sér ónæmi við sýklalyfjum sem mikið eru notuð til lækninga á fólki.
Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður fjallar um skógrækt í Baksviði Morgunblaðsins í dag, mánudaginn 30. mars, og tíundar þar sívaxandi afurðir íslenskra skóga og arðinn af þeim. Rætt er við Þröst Eysteinsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, og fram kemur að íslensku skógarnir gefi nú árlega þúsundir rúmmetra af trjáviði og tekjur af viðarsölu hérlendis hafi numið um 200 milljónum króna á síðasta ári.
Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 21. mars sendi alþjóðamiðstöð skógfræðirannsókna, CIFOR, frá sér fróðlegar greinar og myndband með viðtölum við framúrskarandi sérfræðinga. Vert þótti á þessum degi að vekja athygli á þýðingu skóga fyrir lífið á jörðinni á þessu ári sem skipt getur sköpum í samstarfi þjóða heims um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.