Málþing um áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni á gróður og lífríki verður haldið mánudaginn 23. mars í fundarsalnum Kötlu á 2. hæð á Hótel Sögu í Reykjavík. Þar verður miðlað upplýsingum um bein og óbein áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni og hvernig eftirliti með menguninni er og verður háttað.
Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga laugardaginn 21. mars hefur Skógrækt ríkisins gefið út ljósmyndasyrpu með hugleiðingu um stöðu skóga og skógræktar á tímum örra breytinga í veðrakerfum náttúrunnar. Á alþjóðadegi skóga er það von okkar hjá Skógrækt ríkisins að fólk hugsi hlýlega til skóganna og hvað þeir gefa okkur í formi andlegra og veraldlegra gæða.
Nokkrar skemmdir urðu á skógum vestan lands í óveðrinu sem gekk yfir landið laugardaginn 14. mars, aðallega á Stálpastaða- og Norðtunguskógi. Nýgrisjaðir skógar eru viðkvæmir fyrir stórviðrum meðan trén sem eftir standa eru að styrkja rótarkerfi sitt.
Morgunblaðið ræðir í dag við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, sem segir að skógar landsins séu mikið notaðir. Um hálf milljón gesta komi í skógana á hverju ári samkvæmt lauslegu mati og áfram þurfi að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólkið.
Hætta er á að vinnslu kjötmjöls úr dýraúrgangi verði hætt hér á landi ef marka má frétt í Fréttablaðinu í dag, 13. mars. Stjórn Orkugerðarinnar í Flóahreppi telji forsendur fyrir rekstri félagsins brostnar og vilji sækja um greiðslustöðvun á meðan leiða er leitað til að endurskipuleggja fjárhag félagsins. Kjötmjöl hefur nýst með góðum árangri sem áburður í Hekluskógaverkefninu.