Í klónatilraun með alaskaösp sem gróðursett var á Höfða á Völlum á Héraði árið 2000 kom í ljós tífaldur munur á meðalrúmmáli vaxtarmesta og vaxtarminnsta klónsins. Klónar frá hafræna loftslagsbeltinu reyndust bestir. Fjallað er um tilraunina í nýútkomnu Riti Mógilsár.
Vísindamenn við Oxford-háskólann á Englandi hafa lýst því yfir eftir eins árs yfirlegu og rannsóknir að þeir hafi fundið vænlegasta tækið sem mannkynið hefur tiltækt til að ná koltvísýringi úr andrúmsloftinu og ná tökum á hlýnun jarðar. Tré.
Í janúar lauk framkvæmdum við nýja skemmu á starfstöð Skógræktar ríkisins á Skriðufelli í Þjórsárdal. Skemman leysir af hólmi lélega skúra sem áður hýstu smærri vélar og annan búnað og nú má vinna ýmis verk innan dyra sem áður varð að vinna úti. Stærri vélar komast líka inn í skemmuna til viðhalds og viðgerða. Skemman gjörbreytir þannig aðstöðu starfsfólks í Þjórsárdal og gefur betri möguleika til að vinna verðmæti úr afurðum skógarins.
Undirritaður hefur verið samningur milli Skógræktar ríkisins, Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Íslands um frærækt og viðhaldskynbætur á birkiyrkinu 'Emblu'. Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að kynbótum á íslensku birki og eykur möguleika trjáræktenda á að fá til ræktunar úrvalsbirki sem er bæði harðgert, beinvaxið og hraðvaxta. Skógrækt ríkisins sér um frærækt hins kynbætta birkis og miðlun fræsins til ræktenda.
Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið og nú liggja meginniðurstöður hennar fyrir. Þessar niðurstöður voru kynntar Sigrúnu Magnúsdóttur, ráðherra umhverfismála í dag á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Í fyrsta sinn frá landnámi er nú staðfest að birkiskógar landsins séu að stækka. Þeir þekja nú hálft annað prósent landsins. Mest hafa birkiskógarnir breiðst út á Vestfjörðum og Suðurlandi.