Fréttablaðið fjallar um arðskógrækt þriðjudaginn 17. febrúar og ræðir við Þorberg Hjalta Jónsson, skógfræðing á Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá. Vitnað er í grein Þorbergs í nýlega útkomnu Riti Mógilsár sem hefur að geyma efni frá Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var á Selfossi í mars í fyrra. Þar fjallaði Þorbergur Hjalti um þá möguleika sem byggju í nytjaskógrækt fyrir fjárfesta sem vildu binda fé sitt til langs tíma í arðbærum verkefnum.
Vísindamenn LbhÍ og Landgræðslunnar mældu mestu efnisflutninga sem sögur fara af í aftakaveðri sem varð árið 2010. Landrof var gríðarlegt og milljónir tonna hurfu á haf út. Gróskumikil vistkerfi með hávöxnum skógi þola betur áföll og draga úr neikvæðum áhrifum gjóskufalls. Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag.
Margvíslegar afurðir má vinna úr ligníni sem er aukaafurð frá pappírsframleiðslu. Bætiefni í sement, plastefni og jafnvel lyfjaferjur hafa verið nefndar en íslensku fyrirtækin Matís og Sæbýli ehf. hafa líka unnið með sænska nýsköpunarfyrirtækinu SP Processum að þróun fiskifóðurs úr prótíni sem fæst með gerjun ligníns. Fisktegundin tílapía hefur reynst vaxa álíka vel og jafnvel betur á þessu fóðri en hefðbundnu fóðri úr fiskimjöli.
Sú breyting hefur verið gerð við útgáfu tímaritsins Icelandic Agricultural Sciences að nú fá allar greinar ritsins rafrænt doi-númer sem þýðir að þær eru formlega birtar um leið og þær koma út á netið. Þetta er stór áfangi hjá ritinu og gerir það enn sýnilegra um allan heim og aðgang erlendra sem innlendra fræðimanna að því auðveldari. Ritið verður einungis rafrænt héðan í frá.
Indriði Indriðason, fyrrverandi skógarvörður á Tumastöðum í Fljótshlíð, lést 7. febrúar á 83. aldursári. Indriði starfaði mestalla starfsævina hjá Skógrækt ríkisins og stýrði lengst af gróðrarstöðinni á Tumastöðum í Fljótshlíð. Framlag hans til skógræktar á Íslandi er ómetanlegt.