Landgræðsla ríkisins auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Landbótasjóði Landgræðslunnar Sjóðurinn úthlutar árlega styrkjum til margvíslegra landbótaverkefna til bænda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra umráðahafa lands. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til og með 20. janúar. 
Fyrsta verkefni nýs skógræktarstjóra, Þrastar Eysteinssonar, er að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt og auka vægi skógræktar í loftslagsvernd. Þetta kom fram í viðtali Rúnars Snæs Reynissonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Áhersla verður lögð á að auka aftur gróðursetningu, sem skorin var niður um helming eftir hrunið,“ segir Þröstur meðal annars í viðtalinu.
Draga má verulega úr útblæstri vegna landbúnaðar í Bretlandi með því að auka uppskeru af hverri flatarmálseiningu, rækta skóg á landbúnaðarlandi og endurheimta votlendi. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. 
Kerstin Lange, blaðakona á Nýja-Englandi, skrifar grein um skógrækt á Íslandi í nýjasta tölublað tímaritsins Northern Woodlands. Hún nefnir meðal annars að á Íslandi sé fleira sauðfé nú en var í Vermont þegar fé var þar flest um 1880. Skógar Vermont-ríkis minnkuðu um 75% á fyrstu tveimur öldunum eftir að Evrópumenn settust þar að en hafa verið ræktaðir upp aftur og þekja nú um 78% lands í ríkinu.
Danskur skógtækninemi sem tók hluta af starfsnámi sínu á Íslandi hlaut nýlega önnur verðlaun í ritgerðasamkeppni um námsdvöl í útlöndum. Í ritgerðinni lýsir hann því með skáldlegum hætti hvernig það varð úr að hann fór til Íslands og hvernig dvölin færði honum heim sanninn um að hann væri á réttri hillu í þessu fagi og hefði hlutverki að gegna í þágu náttúrunnar.