Ráðstefnan Tímavélin hans Jóns hefst í Valaskjálf á Egilsstöðum kl. 9.05 í fyrramálið. Ríflega 160 manns eru skráðir til ráðstefnunnar og því verður þetta ein stærsta skógræktarráðstefna sem haldin hefur verið hérlendis. Í dag hittist starfsfólk Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt á sameiginlegum starfsmannafundi. Fundurinn markar upphaf þess starfs sem fram undan er við að undirbúa sameiningu ríkisstofnana í skógrækt.
Á næstu dögum verður tekin í notkun ný stórviðarsög í starfstöð Skógræktar ríkisins á Vöglum í Fnjóskadal. Sögin gerir kleift að nýta betur þann við sem til fellur við grisjun og skógarhögg á starfsvæði skógarvarðarins á Norðurlandi. Vaxandi áhugi er á íslensku timbri til margvíslegra nota.
Áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun styrkir alþjóðlega ráðstefnu um búfjárbeit á Norðurlöndunum sem haldin verður í Hörpu í Reykjavík 12.-15. september á vegum norræna genabankans NordGen og Landgræðslu ríkisins. Litið verður á beit í samhengi við sjálfbæra þróun og loftslagsbreytingar auk annars. Búfjárhald og beit hefur haft umtalsverð áhrif á vistkerfi Norðurlandanna, víða mótað menningarlandslag sem nú er metið til verðmæta sem beri að varðveita en annars staðar valdið varanlegri gróður- og jarðvegseyðingu.
Verkfræðistofan Mannvit hefur unnið skýrslu fyrir Skógrækt ríkisins og Skeiða- og Gnúpverjahrepp um hugsanlega brunahættu á hjólhýsasvæðinu í Skriðufellsnesi í Þjórsárdal. Niðurstaðan er sú að brunahætta þar sé í meðallagi miðað við sambærileg svæði en aðgerða þörf til að draga úr henni svo hún verði lítil. Á næstunni verða skipulagðar þær úrbætur sem ráðast þarf í á svæðinu.
Jón Loftsson, fyrrverandi skógræktarstóri, segir mikla viðhorfsbreytingu hafa átt sér stað í garð skógræktar undanfarinn aldarfjórðung, ekki síst hjá bændum sem hafi uppgötvað möguleika á að nýta léleg beitilönd til að rækta skóg. Viðhorfin hafi gjörbreyst, ekki síst fyrir tilstilli tímavélar sem hann hafi fundið upp árið 1980. Bændur, fullir efasemda, hafi margir ferðast með honum í vélinni og snúist á sveif með skógrækt. Rætt var við Jón á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.