Annað tölublað Skógræktarritsins 2014 hefur verið að berast áskrifendum síðustu daga og þar kennir að venju ýmissa grasa - eða trjáa. Tvær greinar í ritinu snerta ræktun jólatrjáa. Annars vegar fjallar Else Møller skógfræðingur um mögulega inngöngu Íslendinga í samtök jólatrjáaframleiðenda í Evrópu og Helgi Þórsson skógarbóndi skrifar ítarlega grein um reynsluna af jólatrjáarækt á Íslandi.
Í nýútkomnu tölublaði tímaritsins Við skógareigendur fjallar Rakel Jónsdóttir skógfræðingur um gæðapróf á skógarplöntum og Úlfur Óskarsson, lektor við LbhÍ, veltir vöngum um haustgróðursetningu. Í blaðinu er viðtal við Eddu Björnsdóttur, fyrrverandi formann Landssamtaka skógarbænda og einnig rætt við skógarbændurna á Brennigerði í Skagafirði svo eitthvað sé nefnt.
Jólatré hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni undanfarna daga eins og gjarnan er síðustu vikurnar fyrir jól. Skógarbóndi í Eyjafirði segir í útvarpsviðtali að gervijólatré séu bara að þykjast vera jólatré en sjálfur prófar hann sig áfram með ýmsar tegundir í jólatrjáaræktinni. Þá hefur líka heyrst í skógarverðinum á Suðurlandi um svipuð efni í útvarpinu.
Skógræktarfólk vill fremur en nokkuð annað fá góða skógræktarbók í jólagjöf og þetta árið er vert að nefna fjórar sem koma sterklega til greina fyrir þessi jól. Þar er bók um belgjurtir sem bæta jarðveginn, önnur um ávaxtatré sem auka fjölbreytnina, sú þriðja með alhliða fróðleik um skógrækt og sú fjórða handbók um skaðvalda á trjám.
Árin fyrir hrun gróðursettu skógarbændur vegum landshlutaverkefnannaum fimm milljónir plantna árlega en nú er árleg gróðursetning rétt um tvær milljónir, segir Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga, í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Mikil vonbrigði séu að framlög til skógræktar skuli ekki aukin í fjárlagafrumvarpinu. Áætla megi að ef haldið hefði verið áfram að gróðursetja með sama hraða og fyrir hrun hefðu skapast 40 ársverk vítt og breitt um landið.