Út er komin hjá Landgræðslunni skýrsla um hagkvæmni þess að nýta lífrænan úrgang til landgræðslu. Í skýrslunni er bent á margþættan ávinning af betri nýtingu lífræns úrgangs. Mengun minnki, meira land verði grætt upp, sóun fosfórs verði minni og minni tilbúinn áburður fluttur inn sem hafi gjaldeyrissparandi áhrif á samfélagið allt.
Á vef Morgunblaðsins segir frá því að fyrirtækið Bæk­linga­dreif­ing hafi samið við Skóg­rækt­ar­fé­lag Íslands um gróður­setn­ingu trjáa sem svarar því papp­írs­magni bæk­linga sem Bæk­linga­dreif­ing dreif­ir á ári. Vaxandi áhuga virðist gæta hjá fyrirtækjum að kolefnisjafna starfsemi sína með skógrækt.
Olíufélagið N1 hefur skrifað undir samning við Kolvið um kolefnisjöfnun á öllu flugi og notkun eigin bíla fyrirtækisins. Sett verða niður tvö þúsund tré á ári sem nemur hátt í einum hektara skógar árlega.
Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður ritar grein um loftslags í Bændablaðið sem kom út 11. janúar. Þar ræðir hann um mikilvægi kolefnisbindingar sem einna mest varði „uppgræðslu auðna neðan vissra hæðarmarka og viðgerðir á mikið rofnu gróðurlendi, tvö- til fjórföldun gróðursetningar í skógrækt, með birki og innfluttum trjátegundum“.
Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, hefur birt stutt myndband um skógrækt á Íslandi og markmiðið að klæða tíunda hluta landsins með skógi. Samhliða hefur ráðið endurbirt á vef sínum umfjöllun Thomson Reuters Foundation þar sem rætt var við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra.