Hvernig er hægt að koma í veg fyrir frekari eyðingu frumskóga heimsins og er hægt að rækta á ný skóga þar sem þeir hafa horfið? Um þetta er fjallað í fyrstu fræðslumyndinni af þremur í sænsku röðinni The Green Planet. Þátturinn var sýndur á norsku sjónvarpsstöðinni NRK2 í gærkvöldi.
Ljósið frá ljósastaurum við afleggjarann upp í Kjarnaskóg á Akureyri platar lerkitrén. Þau tré sem næst standa staurunum halda enn græna litnum meðan önnur tré eru orðin alveg gul. Haustið bregður upp alls kyns skemmtilegum myndum í skóginum.
Suður-Afríski prófessorinn Mike Wingfield var kosinn forseti IUFRO, alþjóðasamtaka um skógvísindi, á heimsráðstefnu samtakanna sem lauk í Salt Lake City 11. október. Hinn nýi forseti vill meðal annars styrkja enn alþjóðlegt samstarf nemenda í skógvísindum og stuðla að því að ráðamenn heimsins fái upp í hendur áreiðanleg gögn um skóga til að nýta við ákvarðanir um sjálfbæra framtíð jarðarbúa.
Forest Europe, ráðherraráð Evrópu um skógvernd, hleypti í gær, fimmtudag, af stokkunum ljósmyndasamkeppni þar sem meiningin er að þátttakendur sýni skóginn sinn. Mælst er til þess að ljósmyndirnar sýni hvernig skógarnir vernda okkur mennina og hvernig við getum verndað skógana.
Fyrirtækið Rogaland Massivtre AS reisir nú fjárhús í Suldal á Rogalandi í suðvestanverðum Noregi. Byggingin er reist úr gegnheilum viði og bóndinn sem lætur reisa húsið, Arve Aarhus, segir að með þessu móti fái hann þægilegra hús fyrir bæði skepnur og fólkið sem sinnir gegningum, góða hljóðeinangrun og náttúrlega loftræstingu.