Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, heimsótti skógarbændurna Jóhannes Jóhannsson og Þóru Jóhannesdóttur á Silfrastöðum í Skagafirði og ræddi við þau um það stórvirki sem þau hafa unnið í skógrækt á jörð sinni. Fjöldi skógarplantna sem þau hafa sett niður nálgast 1,1 milljón.
Í nýju samkomulagi sem samninganefndir Íslands og ESB hafa undirritað eru sett fram sameiginleg markmið í loftslagsmálum sem hluti af Kýótó-bókuninni. Samkvæmt þeim þarf Ísland að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 31% fyrir 2020 að stóriðju frátalinni. Helmingi þessa markmiðs á að ná með skógrækt og landgræðslu.
Afhjúpaður var í gær í Heiðmörk minnisvarði um fyrsta skógræktarstjóra landsins, Agner Francisco Kofoed-Hansen. Meginstefið í starfi hans var friðun og verndun birkiskóga sem voru í mikilli afturför þegar hann tók við starfi.
Tvöfalt til fimmfalt meiri skóg þarf að rækta á landinu en nú er gert ef mæta á með íslenskum viði þeirri þörf fyrir iðnvið sem líklegt er að verði á öldinni. Hátt landverð, í öðru lagi kostnaður, tafir og áhætta vegna opinberra leyfa og í þriðja lagi ræktunaráhætta eru helstu hindranirnar fyrir fjárfestingum í skógrækt hérlendis, segir Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á Mógilsá, í viðtali við Bændablaðið sem kemur út í dag.
Norræna lífhagkerfið (Nordic Bioeconomy) og lífhagkerfi norðurslóða (Arctic Bioeconomy) verður til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin verður miðvikudaginn 25. júní á Hótel Selfossi. Um þessi mál verður fjallað frá margvíslegum sjónarhornum.