Þráinn Lárusson, ferðaþjónustufrömuður á Héraði, hefur keypt kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað. Hann vonast til að geta boðið íbúum á Hallormsstað að tengjast veitunni líkt og upphaflega var gert ráð fyrir.
Fjallaþinur hefur reglulega þroskað fræ hérlendis síðustu árin og í Þjórsárdal getur nú að líta þétta sjálfsáningu tegundarinnar sem minnir á þinskóga í útlöndum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að í fyllingu tímans verði svipuð forendurnýjun fjallaþins hér og á heimaslóðum tegundarinnar.
Útlit er fyrir mikla fræmyndun í sumar í Hekluskógum eins og annars staðar á landinu. Birkitrén eru hlaðin bæði kven- og karlreklum að sögn Hreins Óskarssonar, sviðstjóra hjá Skógræktinni, sem rætt var við í Samfélaginu á Rás 1 í gær. Sú hugmynd er nú rædd að efna til fræsöfnunarátaks í haust til að nýta allt það fræ sem útlit er fyrir að þroskist þetta sumarið.
Rætt var við Aðalstein Sigurgeirsson, fagmálastjóra Skógræktarinnar, í vísindaþættinum Vetenskapsradions veckomagasin sem er á dagskrá P1 í sænska ríkisútvarpinu á föstudögum. Fjallað var um þá miklu möguleika sem felast í skógrækt á Íslandi, tilganginn og hversu vel skógarnir vaxa á landinu.
Efnt hefur verið til reglulegs samstarfs milli Skógræktarfélags Eyrarbakka og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Á vorin aðstoðar unglingastig skólans við umhirðu á degi íslenskrar náttúru en á haustin sinna öll aldursstig skólans gróðursetningu.