Miðvikudaginn 24. maí ver Sævar Hreiðarsson meistararitgerð sína, „Eiginleikar íslensks trjáviðar, þéttleiki og ending“. Þetta er meistaraverkefni í skógfræði frá auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Athöfnin hefst kl. 13:00 og fer fram í Ásgarði, aðalbyggingu LbhÍ á Hvanneyri. Allir eru velkomnir.
Lars Nielsen, skógarhöggsmaður við starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal, brautskráðist formlega 9. maí sem skógtæknir frá Skovskolen í Danmörku. Hann fékk hæstu einkunn af félögum sínum og var sá eini sem náði að selja lokaverkefni sitt enda var það kosið besta verkefnið á útskriftardaginn. f
Starfsfólk í starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal hóf á mánudag gróðursetningu í jarðunnið land á Hálsmelum norðan Vaglaskógar. Skógarvörðurinn á Norðurlandi telur óhætt að fullyrða að gróðursetning hafi aldrei fyrr hafist svo snemma á þeim slóðum.
Hrafn Óskarsson og Lucile Delfosse, sem bæði vinna í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð, hafa hænt að sér auðnutittlinga með fóðurgjöfum. Þeir huguðustu setjast í lófa þeirra og ná sér í sólblómafræ. Kvenfuglarnir eru frakkari en karlfuglarnir. Allt er nú orðið grænt í Fljótshlíðinni og útlit fyrir mikla blómgun á ýmsum tegundum, ekki síst sitkagreni.
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna með hjálp gervitunglamynda að skógar heimsins ná yfir að minnsta kosti 9 prósentum stærra landsvæði en áður var talið. Vegna þess að skógar jarðarinnar eiga drjúgan þátt í að binda þann koltvísýringsútblástur sem veldur loftslagsbreytingum geta þessi tíðindi haft mikil áhrif á gerð loftslagslíkana.