Unnið verður að sjö verkefnum í Húnaþingi vestra undir merkjum átaksverkefnis í bú­skaparskógrækt sem efnt var til á síð­asta ári. Skjólbeltakerfi verður ræktað á tveimur jörðum, snjófangari á einni jörð og haga­skógur á tveimur. Auk þess verða gerðar tilraunir með skógarbeit og klónatilraun með ösp í skjólbelti.
Mikið ber á brúnleitu birki á höfuðborgarsvæðinu og víðar þessa dagana. Sökudólgurinn er lirfa birkikembunnar sem étur blöðin innan frá. Í nýju rannsóknarverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur, sérfræðings á Mógilsá, verður útbreiðsla birkikembu um landið könnuð og áhrif kembunnar á mismunandi birkikvæmi. Allar upplýsingar um birkikembu hvaðanæva af landinu eru því vel þegnar.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur afhent Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá óvenjustórt viðarnýra sem rak á land við Broddadalsá á Ströndum laust eftir síðustu aldamót. Með árhringjagreiningu hefur uppruni þess verið rakinn til vatnasvæðis Pechora-árinnar í Rússlandi rétt austan við Arkangelsk. Nýrað verður varðveitt á Mógilsá og haft til sýnis almenningi.
Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga, starfsmenn, félagsfólk og fjölskyldur komu saman á laugardag í Kjarnaskógi á árlegum gróðursetningardegi félagsins. Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegundir trjáa, runna og fjölæringa í tilefni af því að í ár eru 70 ár liðin frá því að starfsemi gróðrarstöðvar hófst í Kjarnaskógi.
Skógræktarfélag Borgarfjarðar hefur boðað til samfélagsátaks dagana 15. og 20. júní við gróðursetningu trjáa, en félagið ætlar að gróðursetja um 50 þúsund trjáplöntur í skógræktarlandið í Reykholti í sumar. Biðlað er til almennings að taka þátt í átakinu. Frá þessu segir á vef Skessuhorns.