Vatn er þema alþjóðlegs dags skóga hjá Sameinuðu þjóðunum þetta árið. Í tilefni af því hefur Skógrækt ríkisins sent frá sér myndband þar sem þrír íslenskir vísindamenn segja frá því mikilvæga hlutverki sem skógar heimsins gegna fyrir vatnsauðlind jarðarinnar og tæpa á niðurstöðum hinnar viðamiklu rannsóknar Skógvatns sem gerð var í austfirsku birkiskóglendi og ræktuðum barrskógum.
Vestfirðingar eru gestgjafar Fagráðstefnu skógræktar á þessu ári. Ráðstefnan hefst á morgun, 16. mars á Patreksfirði. Fjallað verður um loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim, gæði íslensks timburs og notagildi, tækni og notkun landupplýsinga og margt fleira. Alls verða flutt ríflega tuttugu erindi en einnig farið í skoðunarferð um Tálknafjörð og litið á vestfirska skóga.
Vart mæl­ast leng­ur storm­ar miðsvæðis í Reykja­vík vegna bygg­ing­ar nýrra húsa og auk­inn­ar gróður­sæld­ar. Í kring­um 1970 mæld­ust storm­ar álíka oft í Reykja­vík og á Kefla­vík­ur­flug­velli. Morgunblaðið fjallar um málið og ræðir við Harald Ólafsson, prófessor í Veðurfræði við Háskóla Íslands, sem var einn frummælenda á ráðstefnunni „Tímavélinni hans Jóns“ sem haldin var á Egilsstöðum í janúar.
Flestir starfsmenn Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna tóku þátt í stefnumótunarfundi um nýja skógræktarstofnun sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík í gær. Unnið var með þjóðfundarfyrirkomulagi á átta hringborðum og er afrakstur fundarins dýrmætt vegarnesti stýrihóps sem vinnur áfram að mótun nýrrar stofnunar sem stefnt er að því að taki til starfa á miðju sumri komanda. Sem kunnugt er hefur verið lagt til að hin nýja stofnun fái heitið Skógræktin.
Fjögur verkefni sem tengjast skógrækt og skógarnytjum hlutu styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands sem nýlega tilkynnti um úthlutun ársins 2016. Greinilegt er að skógarauðlindin sem nú er að sýna sig fyrir alvöru á Austurlandi er uppspretta ýmissa hugmynda um nýtingu skógarafurða til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar.