Föstudaginn 15. desember flytur Thorunn Helgason, doktor í líffræði við háskólann í York, hádegiserindi í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, um landbúnað, jarðveg og framleiðni þar sem hún spyr hver sé framtíð örverulífs í jarðvegi.
Rannsóknir sýna að aukin skógrækt, hvort sem hún er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, er ein besta landnýtingaraðferðin til að binda kolefni úr andrúmslofti. Þetta segir Írinn Eugene Hendrick sem talaði á kolefnisráðstefnunni sem fram fór í Bændahöllinni 5. desember.  Írar leggi ríka áherslu á skógrækt um þessar mundir og að auka skógarþekju landsins, meðal annars til að auka hlut landsins í bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
Skógræktarstjóri hefur áhyggjur af plöntuframleiðslu eftir að ákveðið var að hætta rekstri gróðrarstöðvarinnar Barra vegna samdráttar í skógrækt. Hann segist í samtali við Ríkisútvarpið hafa talað fyrir daufum eyrum ráðamanna um aukna kolefnisbindingu í skógi.
Ráðstefna um leiðir til að auka kolefnisbindingu var haldin í Bændahöllinni þriðjudaginn 5. desember á alþjóðlegum degi jarðvegs. Upptökur að erindunum eru nú aðgengilegar á vef Bændasamtakanna.
Á laugardaginn var haldin ljóðaganga í Hallormsstaðaskógi á vegum verkefnisins „Litla ljóðahámerin“. Aðalgestur ljóðagöngunar var skáldið Andri Snær Magnason en með honum voru Stefán Bogi Sveinsson og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sem lásu ýmis ljóð eftir austfirsk ljóðskáld.