„Ef tekið er mið af þessum mótvægisaðgerðum, sem taka til flestra geira íslensks samfélags, og við höldum uppteknum og máttlausum hætti áfram í landgræðslu og skógrækt, gæti nettóútstreymi ársins 2030 numið 18 prósentum minna en árið 1990. Góður árangur, en hvergi nærri nóg.“ Þetta skrifar leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag og vísar til markmiða ríkisstjórnarinnar um 40 prósenta samdrátt losunar árið 2030 og kolefnishlutleysi um miðja öldina.
Í október birtist hér á skogur.is frétt um listaverk eftir danska skógtækninemann Johan Grønlund Arndal sem hann sker út í trjáboli með keðjusög. Við endurbirtum þessa frétt því nú hefur Hlynur Gauti Sigurðsson, skógræktarráðgjafi og kvikmyndagerðarmaður, gert ljómandi gott myndband um Johan og verk hans.
Skógræktin og skógræktarfélög víða um land hafa ýmist afskorin jólatré til sölu eða bjóða fólki að koma í skóginn að höggva sér tré. Á upplýsingasíðu Skógræktarinnar um jólatré má komast að því hvar best hentar hverjum og einum að næla sér í tré og komast í leiðinni í réttu jólastemmninguna.
Landgræðsluverðlaunin 2017 voru afhent  á opnum fundi um landgræðslumál í Skúlagarði í Kelduhverfi fyrr í vikunni. Frá þessu er sagt á vef Landgræðslunnar, land.is. Meðal verðlaunahafa eru skógarbændurnir Helgi Árnason og Sigurlína J. Jóhannesdóttir á Snartarstöðum í Núpasveit sem stunda umfangsmikla landgræðslu og rækta skóg á 100 hekturum lands.
Nýafstaðið loftslagsþing í Bonn tókst vel að mati Halldórs Þorgeirssonar, forstöðumanns á skrifstofu Loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Halldór segir að Ísland geti gegnt mikilvægu hlutverki, ekki síst á sviði bættra landgæða en það geti þó haft áhrif á orðspor landsins ef ekki verði fljótlega ráðist fyrir alvöru í orkuskipti í samgöngum. Skógræktin, Landbúnaðarháskólinn, Landgræðslan og Bændasamtök Íslands standa sameiginlega að ráðstefnu 5. desember um kolefnismál og landnýtingu.